MÖGULEIKARNIR Í MILLIBILSÁSTANDINU

26.11

Millibilsástand er tímabil sem grundvallast á að því muni ljúka og eitthvað alvöru taka við. Tónlistarkonan Tracy Chapman lýsir þessu þannig í samnefndu lagi “There is fiction in the space between”. Þetta er tími til að doka við og hugsa, velta upp möguleikum, hvíla sig, lesa og vinna úr hugmyndum sem eru búnar að vera að mótast í undirmeðvitundinni.

Frá því að við pökkuðum Sparki saman á Klapparstígnum og settum í geymslu hefur ein slík hugmynd farið að taka á sig raunverulega mynd. Við köllum þetta Lestrarfélagið eða Place to Read og það má fylgjast með þessu verkefni hér https://www.instagram.com/placetoread/?hl=en og hér https://www.facebook.com/placetoread/

Við erum alltaf á höttunum eftir góðri bók og tíma til að lesa. Þegar við höfum verið að gera upp húsnæði og flytja, sem við höfum gert nokkuð reglulega, sjáum við fyrir okkur þegar allt er klárt að setjast niður með góða bók fyrir framan arininn í fallegu og notalegu umhverfi. Þessi sýn er markmiðið með verkefninu; að skapa stað fyrir okkur og aðra sem er sérstaklega hannaður til að njóta þess að lesa. Vonskuveður er kjörið fyrir lestur og mögulega ástæðan fyrir hinni gífurlegu ritvirkni og lestraráhuga þjóðarinnar frá örófi alda.

Í fyrra seldum við fjölskyldan sumarbústaðinn okkar sem hefur verið stór hluti af lífinu síðastliðin 12 ár. Í staðinn var keypt jörð á Mýrunum en Mýrarnar eru einmitt millibilsstaður sem allir bruna í gegnum á leiðinni út á Snæfellsnes. Í sumar hófust framkvæmdir við vegalagningu en húsið mun ekki rísa strax. Í þessu millibilsástandi var ákveðið að festa kaup á stóru tjaldi með kamínu sem skapar sannkallaða ævintýraupplifun ásamt tómu veseni eins og þegar tjaldið fauk um koll og rennblotnaði. Maðurinn minn getur ekki beðið eftir að byggja húsið en ég verð að viðurkenna að mér til mikillar undrunar upplifi ég frelsistilfinningu að eiga ekki sumarbústað. Allt í einu varð sumarið óskrifað blað, við fórum í fyrsta skipti til útlanda yfir sumartímann, vorum meira heima hjá okkur sem var góð tilbreyting og fórum í endalausar gönguferðir um “nýja” landið, sigldum á vindsængum niður ána, lögðum okkur í lautunum, fórum í reiðtúra og höfðum nægan tíma til að vera úti í náttúrunni og gera ekki neitt sérstakt. Það þurfti nefnilega ekki að bera á húsið og pallinn, gera upp útihúsið, taka til og skipta á rúmunum. Ekkert að fara í Húsasmiðjuna eða Bauhaus. Dásamlegt þetta millibilsástand.