RÁN FLYGENRING, HEIMILDATEIKNARI

01.10.15 – 01.12.15

Flest börn teikna og finna í því gleði, leik og sálarró. Margir hætta að teikna á fullorðinsárum og tjá sig frekar með orðum í gegnum tungumálið og skrift. Samkvæmt íslenskri orðsifjabók þýddi það að teikna á forníslensku að skrifa eða letra.

Rán Flygenring útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Listaháskóla Íslands árið 2009. Eitt af því sem er skemmtilegt og merkilegt við Rán er að hún hefur notað hæfileika sína sem teiknari til þess að lifa því lífi sem hana langar til að lifa. Hún er sífellt á ferðinni, rýnir í umhverfið, aðallega fólkið og hefur óendanlegan áhuga á mannlegri hegðun. Hún sér gjarnan skoplegu hliðarnar á tilverunni, það er leikur í teikningunum og stíllinn er áreynslulaus og smitandi. Teikningarnar eru frásagnir af atburðum og aðstæðum sem Rán upplifir og þær bera það með sér að Rán er þátttakandi frekar en áhorfandi.

 

Margir muna eftir Rán í hlutverki Hirðteiknara Reykjavíkurborgar sumarið 2011, eftir það ferðaðist hún um heiminn í nokkur ár með penna, ferðaskanna og teikniblokk í farteskinu. Í sumar hefur Rán ferðast um Ísland og notið þess til hins ýtrasta. Aðallega hefur hún tekið ástfóstri við baðmenninguna sem á sér margar hliðar í íslensku samfélagi og náttúru. Afrakstur sumarsins verður nú kynntur í Sparki. Um er að ræða 150 teikningar auk nokkurra þrívíðra verka. Einnig verður sýnd stutt heimildarmynd eftir kvikmyndagerðarmanninn Sebastian Ziegler sem hefur ferðast með Rán í sumar.

Verkefnið vekur mann til umhugsunar um það hvað starfsvettvangur getur verið sveigjanlegur þegar fólk er frumlegt í hugsun og hæfileikaríkt. Hefðbundin starfsheiti geta verið svo niðurnjörvandi. Eitt fyrsta verk Ránar eftir að hún útskrifaðist var einmitt að finna upp nýtt starfsheiti eða titil, Hirðteiknari Reykjavíkurborgar. Nú er Rán er ekki lengur Hirðteiknari heldur Heimildateiknari.