VIÐ ERUM Í GEYMSLU - NETBÚÐINNI OKKAR HEFUR VERIÐ LOKAÐ

25.05.17 – 25.05.17

Í apríl síðastliðnum lokuðum við rýminu okkar við Klapparstíg og leigðum geymslu úti á Granda. Hér er iðulega fólk á ferli sem hefur fengið annað fólk til að hjálpa sér að flytja. Það er fátt leiðinlegra en að hjálpa öðru fólki að flytja svo það er enginn neitt sérstaklega hress á svæðinu. Að leigja sér geymslu er oftast tengt einhverskonar breytingum eða millibilsástandi. Fólk leigir geymslu þegar það er á milli húsnæða, hefur verið að skilja eða þegar það hefur einfaldlega safnað að sér of mörgum hlutum. Ég verð að viðurkenna að þessu millibilsástandi fylgir einhverskonar frelsistilfinning, tækifæri til að draga andann og íhuga. Það eru ýmsir möguleikar í stöðunni, sá sem er mest freistandi í augnablikinu er auðvitað sá að njóta sumarsins. Þá er það að minnsta kosti ákveðið.

Geymsluhegðun er afar áhugaverð og um þessar mundir veit ég um nokkra aðila sem eru í einhverskonar afgeymslu meðferð. Meðferðin felst í því að í staðinn fyrir að koma hlutum fyrir í geymslu, þá losar maður sig við þá. Þetta getur verið hægara sagt en gert. Einn helsti ráðgjafinn í þessum málum er japanski hreingerningar ráðgjafinn Marie Konds sem hefur gefið út bókina The life changing magic of tidying up. 

Fyrir hina sem hafa brennandi áhuga á hlutum eða réttara sagt hafa áhuga á fólki sem hefur áhuga á hlutum þá má benda á bandarísku sjónvarpsþættina Geymslu Stríð / Storage Wars en þeir snúast um það að geymslufyrirtækin bjóða upp innhald geymslu sem komin er í vanskil. Fólk býður í allt innihaldið í þeirri von að í geymslunni leynist dýrmæti sem hægt er að selja fyrir margfalda þá upphæð sem greidd var.  Já misjafnt er mannanna gaman.